Hlutar Netskólans

Það má skipta Netskólakerfinu í þrjá hluta eða kerfiseiningar; nemendakerfi, kennslukerfi og umsjónarkerfi.

Nemendakerfi:
Í nemendakerfinu geta nemendur breytt upplýsingum um sig og skoðað þær upplýsingar sem þeir hafa réttindi til að sjá. Einnig geta þeir bætt inn efni úr eigin tölvu, bæði myndum og skrám t.d. Word skjali sem á að skila sem viðhengi með lausn á skilaverkefni. Í skráasafni er hægt að sjá allar skrár sem notandinn hefur flutt í safnið sitt, gert breytingar, eytt út efni o.s.frv.
Með póstkerfinu er hægt að senda öðrum notendum í skólanum póst, nemendur hafa einnig aðgang að öðrum samskiptatólum, sem eru vefþræðir og rauntímaspjall.
Með dagatali nemenda sér nemandinn yfirlit yfir atburði af skóladagatali, skiladaga verkefna og fleiri minnisatriði. Nemendur geta einnig skráð sín eigin minnisatriði.
Nemendur geta sett upp eigin heimasíðu í kerfinu, en þetta er mjög vinsæll möguleiki. Á heimasíðunni er hægt að stofna síður, skrifa í dagbók og birta efni úr efnismöppu, sem er svæði þar sem nemendur geta sett inn eigið efni. Á heimasíðunni er einnig hægt að hafa myndasíður og gestabók.
Með listum og yfirlitum hafa nemendur aðgang að upplýsingum eins og námsferli, einkunnabók, efnismöppu og lista með skilaverkefnum.

Kennslukerfi:
Kennarar geta stofnað netnámskeið, þar sem uppsetning er mjög sveigjanleg. Hægt er að tengja námskeið við fög úr skólanámskrá til að fá aðgang að gögnum úr henni. Þegar námskeið hefur verið stofnað er hægt að raða upp námsefni, bæði er hægt að nota efni úr efnisbanka eða skrá nýtt efni. Það er hægt að skrá 9 mismunandi tegundir af efni; verkefni, skilaverkefni, hópverkefni, sögur, vefleiðangra, eyðufyllingaræfingar, kennsluefni, próf og gagnvirkt efni. Kennarar hafa einnig aðgang að ýmsum hjálpartækjum á námskeiðum. Dæmi um slík hjálpartæki eru hugtakasafn, spurt og svarað, tenglasafn og samskiptaver. Í samskiptaveri er hægt að senda nemendum póst, stofna vefþræði eða spjalla í rauntíma. Kennarar geta nákvæmlega fylgst með framvindu, ástundun og virkni nemenda. Námskeiðahlutinn má segja að sé hjartað í Netskólakerfinu.
Aðrar einingar sem kennarar hafa aðgang að eru netkynningar, sem henta ágætlega til að kynna ákveðið efni án beinnar kennslu t.d. efni af ráðstefnum og málþingum. Hægt er að nota efni úr efnisbanka í netkynningum.
Kennarar geta stofnað bekkjarvefi og sett þar inn efni eftir nemendur, birt skólanámskrá, stundaskrá og sett inn upplýsingar um starfið í bekknum sínum.

Umsjónarkerfi:
Í Umsjónarhlutanum vinna umsjónarmenn stofnana með stillingar fyrir hvern skóla í kerfinu. Útlit á vef hvers skóla í kerfinu er frjálst og býður það upp á mikinn sveigjanleika. Hluti af umsjónarkerfinu er vefgátt eða portal þar sem umsjónarmenn geta raðað efniseiningum á síður eins og hentar uppsetningu hverrar stofnunar. Búið er að hanna um 30 mismunandi efniseiningar og einfalt mál er að bæta við einingum í samræmi við óskir og þarfir viðskiptavina. Í vefumsjónarkerfi er hægt að setja upp síður eða heilan vef. Kerfið býður einnig upp á að útbúa myndasíður, setja upp skóladagatal, skólanámskrá og fréttakerfi. Þessar einingar vinna margar saman t.d. er sama fréttakerfi notað á forsíðu skólavefs og á bekkjarvefjum. Einnig er hægt að tengja myndasíðu við frétt og stofna umræðu um frétt eða grein.
Umsjónarmenn þurfa einnig að hafa umsjón með notendum, þeir geta flett upp leyniorðum notenda ef þeir hafa gleymt því, prentað út notendalista og stofnað nýja notendur. Umsjónarmenn geta einnig úthlutað kennararéttindum. Með skýrslusmið er hægt að taka út skýrslur og upplýsingar t.d. um skólasókn, prenta út notendaupplýsingar, flytja skólanámskrá í Word eða prenta hana út og senda tölvupóst á ákveðinn notendahóp t.d. alla notendur, alla kennara, alla í ákveðnum bekk eða alla nemendur á ákveðnu námskeiði.