Fósturbörn hennar kisu

Fósturbörnin hennar kisu

Svo bar við fyrir nokkrum árum á bæ einum í Árnessýslu að kisa og tík gutu samtímis og fengu báðar að halda sínu afkvæminu hvor. En litlu síðar drapst tíkin. Var hvolpurinn enn svo ungur og ósjálfbjarga að líklegt þótti að hann myndi veslast upp nema kisa fengist til að miskunna sig yfir litla móðurleysingjann. Og það gerði hún umsvifalaust, og sýndi hvolpinum engu minni ástúð en kettlingnum.

Liðu svo fáeinir dagar. Þá fundust þrír móðurlausir andarungar, nýskriðnir úr eggi. Kom einhverjum til hugar að gaman væri að sýna kisu ungana og vita hvað hún tæki til bragðs. Þó var það gert með varúð, því að líklegra þótti að kisa myndi líta á ungana sem aðra fugla og stúta þeim. En það fór á annan veg. Hún tók við móðurleysingjunum þremur með móðurlegri blíðu og virtist mjög ánægð með að bæta þeim í hópinn. Mikil urðu þó vonbrigði hennar í fyrstu að geta aldrei komið ungunum á spena, hversu mikið sem hún stríddi við það. En þeir voru fegnir að kúra hjá henni með félögum sínum og njóta atlota hennar og umhyggju. Og alltaf tók kisa á móti þeim undir ,,verndarvæng sinn“, hversu blautir sem þeir voru og hjúkraði þeim eftir bestu getu.

Ég sá kisu með þennan sundurleita hóp nokkuð stálpaðan. Var samkomulagið hið besta, fóstursystkinin léku sér glöð og kát og kisa fylgdist með ærslum þeirra athugul og ánægð en þó íbyggin að sjá, eins og hún væri dálítið hreykin með sig. Hún mátti líka vera það; henni hafði tekist uppeldið prýðilega. Og hún hélt áfram að annast þessi ósamkynja ,,fósturbörn“ uns hún hafði komið þeim öllum til fulls þroska.

Böðvar Magnússon




Hvaða tvö húsdýr áttu afkvæmi samtímis?
 


Spurning 1 af 5.

 5  




© Edda Rún Gunnarsdóttir 29.2.2012