Tannpína er ekki ný af nálinni - lestexti

Þú hefur kannski lesið eitthvað eða lært um Egyptaland í skólanum. Fyrir 2-4000 árum var Egyptaland stórveldi, þá voru meðal annars pýramídarnir byggðir og konungurinn í landinu kallaðist Faraó og hann var í guðatölu. Þegar konungurinn féll frá var líkami hans varðveittur (gerður að múmíu) og svo var pýramídi notaður sem grafhýsi. Líkamar sem eru varðveittir á þennan hátt geta geymst svo öldum skiptir og því hefur verið hægt að fræðast um ýmislegt með því að rannsaka þá.

Nú hefur meðal annars komið í ljós að fyrir gömlu Egyptana hefur hver máltíð trúlega verið kvöl og pína. Þeir voru margir með skemmdar, ónýtar eða jafnvel engar tennur og hafa því eflaust átt erfitt með að tyggja matinn. Rannsóknir á tönnum 500 Forn-Egypta hefur leitt í ljós að margir voru með brenndar tennur og tannrætur og það sem eftir var var fullt af óhreinindum og bakteríum.
Einn af þessum var faraóinn Ramses II. Hann var valdamesti faraóinn og endurreisti meðal annars egypska stórríkið um 1200 f.kr. Rannsókn á honum leiddi í ljós að stærsti hluti tannanna í honum voru ekki annað en pínulitlir slitnir stubbar, sem héngu lausir við kjálkann. Tannsjúkdómur hafði tært það mesta af rótunum og hann hefur haft ígerð í neðri kjálkanum. Fyrir utan blæðandi tannhold og ólæknandi tannpínu hefur Ramses örugglega verið að kæfa alla nálægt sér úr andfýlu.
Þessar niðurstöður koma að mörgu leyti á óvart því bæði faraóarnir og almenningur stunduðu heilbrigt líferni í gegnum allt egypska tímabilið frá um 4000 til 30 fyrir Krist. Fornleifarannsóknir hafa til dæmis leitt í ljós að fólk borðaði góðan og hollan mat sem samanstóð af grænmeti, brauði, fiski, alifuglum og ávöxtum.
Menn hafa getið sér þess til að ástæðuna fyrir tannskemmdunum megi rekja til brauðsins sem Egyptarnir bökuðu.
Egyptar notuðu svokallað emmerhveiti í brauðið sitt, en það verður mjög límkennt þegar það er tuggið. Egyptarnir, sem ekki notuðu tannbursta eða neitt þvíumlíkt, voru þess vegna oft með brauðafganga klístraða á tönnunum tímunum saman. Þetta er ekki mjög hollt, hvorki fyrir tennurnar né tannholdið. Bakteríur í brauðafgöngunum geta komist meðfram tönninni að tannrótinni og valdið þar skemmdum eða jafnvel ígerð.
Ekki bætir úr skák að egypska brauðið var fullt af agnarsmáum sandkornum. Hveitið var malað með steináhöldum sem varð til þess að sandkorn blönduðust saman við hveitið. Stundum var brauðið líka bakað í ofni utandyra þar sem sandur blés inn á meðan bakað var. Sandurinn í brauðinu sleit svo tönnunum þegar það var borðað.

Hveitið og sandkornin skýra þó ekki af hverju tennur Egyptanna urðu meira og meira skemmdar eftir því sem leið á forn-egypska tímabilið. Judith Miller fornleifafræðingur heldur því fram að ástæðan sé hugsanlega sú að neysla sykurs varð algengari eftir því sem á tímabilið leið. Um 1500 fyrir Krist urðu sætir ávextir, svo sem döðlur og fíkjur ásamt ávaxtasafa útbreiddir. Þetta helst í hendur við auknar tannskemmdir.  Tennur faraóanna urðu verst úti, kannski vegna þess að þeir voru mikið fyrir sykur eða höfðu greiðan aðgang að sætindum og gátu fengið sér eins og þá lysti.
En hvers vegna voru engir tannlæknar í Egyptalandi fyrst allir voru með tannpínu?  Við vitum ekki hvort til voru tæki til tannlækninga á þessum tíma, þótt til séu heimildir um Forn-Egypta sem sýna fram á að þeir hafi staðið framarlega í læknisfræði.  Það er allavega ljóst að tannpína og tannskemmdir hafa lengi herjað á okkur mennina, en nú til dags höfum við að sjálfsögðu enga afsökun fyrir að hugsa ekki vel um tennurnar okkar.





© Árni H. Björgvinsson 17.2.2006