Grunnuppbygging

Nokkrir mismunandi aðilar nota Netskólakerfið, en hver aðili eða stofnun notar sína eigin uppsetningu og útlit á kerfinu.

Hver stofnun hefur enn fremur eigin notendalista og geta notendur aðeins skráð sig inn í kerfið á réttum stað þ.e. í þeirri stofnun sem þeir tilheyra.

Útbúin er sérstök síða fyrir hvern notanda og frá henni er veittur aðgangur að mismunandi aðgerðum eftir því hver á í hlut. Þessi síða sem kallast Mín síða er uppsett á mismunandi hátt eftir stofnunum og getur innihaldið mismunandi upplýsingar.  Ekki er óalgengt að á Mín síða séu fréttir og tenglar inn á námskeiðsvefi auk fleiri möguleika.

Með sérstöku innanhúss póstkerfi geta notendur skipst á skeytum. Einnig eru skeyti send sjálfkrafa við ákveðnar aðstæður t.d. til kennara þegar nemandi hefur lokið ákveðnu viðfangsefni eins og prófi. Fleiri samskiptamöguleikar eru í boði með rauntímaspjalli og vefþráðum.

Netskólinn er íslensk hönnun og eru meginmarkmið hans að:

  • vera stoðtæki í símenntun.
  • efla fjarnám á öllum skólastigum
  • hafa í boði íslenskt vefumhverfi fyrir dreifnám
Mikil vinna hefur verið lögð í að skipulag og umhverfið innan veggja skólans sé þannig uppbyggt að sem auðveldast sé fyrir þá sem þar eiga leið um að rata og stunda vinnu sína hvort sem er við nám eða kennslu. Flestir sem til þekkja eru á sama máli um að umfang menntunar sem nýtir sér kosti Netsins muni margfaldast á næstu árum og er að mörgu að hyggja í þessu efni.
  • Taka þarf mið af þörfum nemenda og nýta tæknina sem stoðtæki frekar en að láta hana vera í aðalhlutverki.
  • Fyrirbæri og hugtök í menntakerfi netsins verða að vera þannig að nemendur og kennarar geti auðveldlega samsamað sig þeim.
  • Námsefni verður að vera aðlagað hinum nýja miðli sem Netið er og nýta sér þá kosti sem það býður upp á.
  • Fyrir okkur Íslendinga er mikilvægt að námið og námsumhverfið sé á íslensku.
  • Mikilvægt er að umhverfið sé lifandi og skemmtilegt og höfði til notenda á öllum aldri á þann hátt að tæknin leiði til aukins áhuga á sjálfu náminu, efli sköpunarmátt og auki valkosti til samskipta og samvinnu.